Hvað viltu taka með þér á eyðieyju?

Gagna-Magnús var spurður að þessu, ja eða kannski frekar, ef þú þyrftir að velja aðeins eitt verkfæri til að vinna með gögn, hvaða verkfæri myndir þú velja? Eftir að hafa klórað sér í skegginu um stund sagði hann Microsoft Excel.

Þetta er að sjálfsögðu huglægt mat sem byggir á reynslu þess sem spurður er, hverjum þykir sinn fugl fagur, sér lagi ef hann er í hendi. En Gagna-Magnús, hvers vegna Excel?

Excel spannar mikla breidd í virkni (sem ristir reyndar oft frekar grunnt) og er það gagnameðhöndlunarverkfæri sem hefur mesta útbreiðslu á heimsvísu. Lausleg athugun bendir til að 5% jarðarbúa noti Excel reglulega! Það eru 400 milljónir takk fyrir! Sumar heimildir tala reyndar um allt að 1,5 milljarð... Þessi fjöldi endurspeglast í því að það er varla til sá skrifstofustarfsmaður sem ekki hefur aðgang að Excel og notar forritið reglulega.

Þeir sem ná færni í Excel geta gert ótrúlegustu hluti, sótt gögn úr mörgum ólíkum áttum, umbreytt þeim, gert greiningar, fallegar skýrslur, forritað og í rauninni gert nánast hvað sem þeim dettur í hug. En þegar metnaðurinn verður of mikill geta þessar lausnir virkað kauðalegar (skort þokka í reisn og fasi), verið hægvirkar, brothættar og þar fram eftir götunum. Sama má segja um öll fjölnotaverkfæri, þau geta gert ótrúlega mikið gagn ef ekkert annað er við hendina en eru sjaldan besta verkfærið til neins. Það gildir þó ekki endilega að öllu leyti um Excel, því það er mögulega besta verkfærið til að leysa mörg verkefni.

Fyrir lengra komna er auðvitað freistandi að nefna R eða Python sem er í raun nokkuð merkilegt. Hvort tveggja eru gömul forritunarmál (álíka gömul og Excel) og opinn hugbúnaður. R spratt úr akademískum tölfræðirannsóknum og Python úr akademískum rannsóknum á forritunarmálum. Auðvelt er að bæta virkni við þessi forritunarmál sem er svo gerð aðgengileg í pökkum. Þrjátíu árum seinna eða svo er hægt að sækja tæplega 20.000 R pakka og rúmlega 200.000 Python pakka! En vissulega eru þeir pakkar sem eru almennri notkun kannski frekar taldir í tugum fyrir hvert afmarkað viðfangsefni. Þeir sem þurfa að fara meira á dýpið en auðvelt er að komast með Excel, þeir sem vinna með mjög stór gagnasöfn og þeir sem geta, eru í mörgum tilfellum betur settir á eyðieyjunni með R eða Python, svo framarlega sem þeir mundu eftir að pakka uppáhaldspökkunum sínum.